Íblöndunarefni í eldsneyti

30. nóvember 2015

Íblöndunarefni í eldsneyti

Á Alþingi árið 2013 var pólitísk samstaða um að að skylda söluaðila eldsneytis hérlendis til að blanda endurnýjanlegu eldsneyti í jarðefnaeldsneyti. Er það gert til að draga úr áhrifum útblásturs við brennslu jarðefnaeldsneytis með það að markmiði að draga úr mengun í andrúmslofti. Var ákvæði þetta fest í lög nr. 40/2013.

Söluaðilum eldsneytis var með þessu gert skylt að hefja íblöndun frá 1. janúar 2014 þar sem endurnýtanlegt eldsneyti væri minnst 3,5% af orkugildi en frá 1. janúar 2015 skyldi íblöndun nema minnst 5% af orkugildi á því eldsneyti sem notað er til aksturs á vegum (roadfuel). Lög þessi eiga sér tilvísun í tilskipun Evrópusambandsins, sem íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að fylgja . N1 hefur farið eftir settum lögum.

Til að uppfylla kröfur íslenskra stjórnvalda er beitt sömu aðferðum hérlendis og í nágrannalöndunum en þar er etanól og biodísill notað til íblöndunar. N1 og forveri þess byrjaði að blanda biodísil í dísilolíu árið 2005, fyrst íslenskra olíufélaga, til að minnka útblástur við brennslu jarðefnaeldsneytis.

Varðandi kröfur yfirvalda um íblöndun er mikilvægt að vekja athygli á því að grunnástæðan er sú sama og var rætt um á umhverfisráðstefnunni í París í lok nóvember 2015 og flestar þjóðir heims hafa gengist undir að fylgja; að draga úr mengun m.a. vegna jarðefnaeldsneytis.

N1 leggur ríka áherslu á að uppfylla kröfur um umhverfisvernd og hefur því um árabil gengið lengra til að draga úr mengun, en krafist hefur verið af yfirvöldum. Þeim sem vilja kynna sér málið betur er bent á að kynna sér lög nr. 40/2013.