HM Torgin í sumar
Útsendingar frá HM í knattspyrnu munu fara fram í Hljómskálagarðinum og á Ingólfstorgi í sumar. Leikir Íslands verða sýndir í Hljómskálagarðinum en allir leikir mótsins á Ingólfstorgi.
Hljómskálagarðurinn og Ingólfstorg verða því hin opinberu HM torg í sumar þar sem borgarbúar og gestir geta upplifað sannkallaða HM stemmingu beint í æð. Þá mun RÚV verða með útsendingar frá HM torgi og með umfangsmikla aðstöðu á staðnum.
Einstök stemning myndaðist á Arnarhóli fyrir tveimur árum þegar strákarnir kepptu á Evrópumótinu í knattspyrnu en til þess að geta tekið á móti þessum fjölda fólks var talið heppilegra að vera í Hljómskálagarðinum.
Bakhjarlar Knattspyrnusambandsins eru N1, Advania, Landsbankinn, Coca Cola, Vodafone og Icelandair sem sjá má ásamt Guðna Bergssyni og Degi B. Eggertssyni á myndinni hér fyrir ofan.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ
„Knattspyrnuhátíðin í miðborginni heldur áfram þetta sumarið og nú tekur HM-torgið við af EM-torgum síðustu ára. Það er auðvitað mikið gleðiefni að við séum í þeirri stöðu á hverju ári að bjóða til annarrar eins knattspyrnuveislu. Samstarf KSÍ, Reykjavíkurborgar og bakhjarla KSÍ hefur verið öflugt og reynsla síðustu ára mun gera okkur kleift að gera enn betur í sumar.“
Dagur B. Eggertsson, Borgarstjóri
„Reykjavíkurborg býður alla velkomna að fylgjast með leikjunum og upplifa einstaka stemningu í fallegu umhverfi og góðri aðstöðu. HM er risaviðburður og við erum stolt af því að geta boðið öllum landsmönnum jafnt sem erlendum gestum upp á þennan möguleika.“