Hægt að nálgast vörur ELKO á N1
ELKO hefur hafið samstarf við Dropp um afhendingu á pöntunum frá ELKO á þjónustustöðvum N1 og geta viðskiptavinir nú nálgast pantanir allan sólarhringinn á völdum stöðvum N1. Frítt er fyrir viðskiptavini ELKO að fá pantanir sendar á þjónustustöðvarnar og eru sendingarnar afhentar á stöðvarnar tvisvar á dag.
Viðskiptavinir ELKO sem velja að sækja á N1 geta nálgast vörur á fjórum stöðum til að byrja með. Það er á Hringbraut, Ártúnshöfða, Lækjargötu í Hafnarfirði og Háholti í Mosfellsbæ. Þrjár þær fyrstnefndu eru sólarhringsstöðvar og því er hægt að fá vörurnar afhentar hvenær sem er sólarhringsins.
„Með þessari þjónustu erum við að mæta þörfum viðskiptavina okkar sem nú geta nálgast vörur þar sem þeim hentar og þegar þeim hentar. Þessar staðsetningar stöðvanna og afgreiðslutími þeirra gefa viðskiptavinum okkar ákveðinn sveigjanleika og gefur þeim fleiri valkosti varðandi afhendingu pantana þegar þau versla í vefverslun ELKO.is,“ segir Sófús Árni Hafsteinsson, þjónustustjóri hjá ELKO.
Jón Viðar Stefánsson, rekstrarstjóri N1 segist ánægður með samstarfið við Dropp og Elko og það hafi gengið afar vel nú í upphafi.
„Við lítum á þetta sem aukna þjónustu við viðskiptavini okkar og miðað við hve vel þetta fer af stað er greinilega eftirspurn eftir að fá að sækja sendingar á okkar þjónustustöðvar. Næsta skref hjá okkur er að fjölga staðsetningum þar sem hægt er að sækja vörur.”
Dropp er nýtt fyrirtæki sem sér um afhendingu á vörum fyrir netverslanir og með samstarfi við ELKO og N1 er hér komin ný þjónusta fyrir viðskiptavini N1 og ELKO, sem einfaldar hversdagsleika þeirra sem vilja kaupa sér vörur á netinu og nálgast þær hvenær sem er sólarhringsins á þjónustustöðvum N1.