Gripið til varúðarráðstafana á þjónustustöðvum N1

16. mars 2020

Gripið til varúðarráðstafana á þjónustustöðvum N1

N1 hefur ákveðið að grípa til enn frekari varúðarráðstafana vegna þess ástands sem nú ríkir í þjóðfélaginu vegna COVID-19 veirunnar. Miða þær aðgerðir allar að því að auka öryggi, minnka til muna alla hættu á smiti og vernda viðskiptavini og starfsmenn N1.

Í því skyni hafa þrif á þjónustustöðvum N1 verið margfölduð, ekki síst þrif á snertiflötum á borð við posa, hurðar, kæli og í og við salerni. Þá hefur jafnframt verið gripið til margvíslegra ráðstafana í kringum sjálfsafgreiðslu á þjónustustöðvunum. Má þar nefna:

• Sjálfsafgreiðslu á nammibörum hefur verið hætt
• Sósur fyrir pylsur hafa verið færðar fyrir aftan afgreiðsluborð
• Salatbarir í sjálfsafgreiðslu hafa verið fjarlægðir
• Bakkelsi í sjálfsafgreiðslubakaríum er nú pakkað inn
• Kaffibollar, lok og aðrir fylgihlutir, hafa verið færðir fyrir aftan afgreiðslulínu
• Hnífapör fyrir viðskiptavini veitingastaða verða afhent af starfsfólki

Starfsfólk N1 hefur jafnframt upplifað talsverðar breytingar á sínum vinnustöðvum. Má þar nefna að takmarkandi aðgangsstýring hefur verið tekin upp að höfuðstöðvum fyrirtækisins á Dalvegi, skammtað er á diska í mötuneyti, hluti starfsmanna vinnur að heiman og þeim tryggður viðeigandi búnaður, vinnusvæði hafa verið afmörkuð, vaktir aðskildar, fundahöld takmörkuð til muna, ferðir erlendis felldar niður og heimsóknum til viðskiptavina fækkað umtalsvert.

Þá eru til staðar viðbragðsáætlanir ef loka þarf einhverjum staðsetningum vegna ástandsins.

Starfsfólks N1 fylgist vel með stöðu mála og fylgir leiðbeiningum Landlæknis og Almannavarna til hins ítrasta og ítrekar að öryggi og vernd viðskiptavina og starfsmanna er ætíð í fyrirrúmi.

Við hvetjum viðskiptavini til að nýta sér rafrænar þjónustuleiðir okkar á www.n1.is , netspjallið okkar eða þjónustuverið í síma 440-1000.