Fyrsta hraðhleðslustöðin við hringveginn
Nú geta ökumenn rafbíla sótt sér snögga áfyllingu á bílinn á nýrri hraðhleðslustöð sem Orka náttúrunnar (ON) hefur sett upp í Borgarnesi í samstarfi við N1. Stöðin, sem stendur við N1 Borgarnesi, er sjöunda stöðin af tíu sem ON opnar á Suður- og Vesturlandi og sú fyrsta sem stendur við þjóðveg númer eitt. Stöðvarnar sem nú þegar hafa verið opnaðar eru á Reykjavíkursvæðinu og á Suðurnesjum. Fyrirhuguð er uppsetning stöðva í uppsveitum Suðurlands og í miðborg Reykjavíkur.
Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur. Þetta er tilraunaverkefni til tveggja ára og á meðan tilrauninni stendur verður hleðslan á stöðvunum gjaldfrjáls.
N1 eykur þjónustuna við viðskiptavini sína
N1 leikur stórt hlutverk í samgöngukerfi landsins með sölu eldsneytis og þjónustu á stöðvum sínum hringinn í kringum landið. „N1 hefur skýra sýn í umhverfismálum. Með fyrstu hraðhleðslustöðinni við hringveginn er N1 að auka þjónustu við viðskiptavini sína og þróa hana með það fyrir augum að minnka áhrifin á umhverfið. Með opnuninni tökum við enn eitt skrefið í átt að umhverfisvænni lífstíl með viðskiptavinum sínum,” segir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1.
Rafbílaeigandi af hugsjón
Það var María Thors sem fékk sér fyrstu hleðsluna í Borgarnesi nú í morgun. Hún er rafbílaeigandi af hugsjón og hefur farið sinna ferða á rafmagnsbíl frá 2007. María fagnar tilkomu hraðhleðslustöðvanna. „Það er mikilvægt að geta fyllt á bílinn með skjótum hætti, sérstaklega á lengri leiðum,“ segir María, sem vildi helst sjá allan hringveginn varðaðan hraðhleðslustöðvum. Útblástur og önnur umhverfisáhrif sem hægt er að forðast með rafbílunum er ástæða þess að María valdi þennan kost. Hún segir reksturinn talsvert ódýrari og orkukostnaðinn ekki hafa áhrif á ákvarðanir um bíltúra.
Um Orku náttúrunnar ohf.
Orka náttúrunnar framleiðir og selur rafmagn til heimila og fyrirtækja um allt land og rekur fjórar virkjanir; jarðvarmavirkjanirnar á Hellisheiði og Nesjavöllum og vatnsaflsvirkjanirnar í Andakílsá og Elliðaám. Auk rafmagnsframleiðslu framleiða jarðvarmavirkjanirnar heitt vatn fyrir hitaveituna. Orka náttúrunnar er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.