Fjölmennasta knattspyrnumót sem hefur verið haldið á Íslandi
Hið árlega N1-mót KA í knattspyrnu fyrir 5. aldursflokk drengja verður haldið á KA-svæðinu á Akureyri dagana 30. júní – 3. júlí. Mótið er nú haldið í 24. skipti og hefur aldrei verið fjölmennara. Í mótinu taka þátt um 1500 strákar og með þjálfurum og liðsstjórum eru þátttakendur um 1800. Og þegar svo bætist við mikill fjöldi foreldra og annarra aðstandenda er ljóst að margt verður um manninn á KA-svæðinu næstu daga. Fullyrða má að þetta verður fjölmennasta knattspyrnumót sem til þessa hefur verið haldið hér á landi.
“N1-mót KA og þar áður ESSO-mót KA hefur í gegnum tíðina verið eitt þriggja stærstu knattspyrnumóta á landinu og þátttakan í mótinu í ár slær öll fyrri met. Flest hafa þátttökuliðin verið 142 en í ár eru þau 168 frá 35 félögum af öllu landinu. Til þess að koma öllum þessum mikla fjölda fyrir verður nú spilað á tólf völlum, sem eru allir á KA-svæðinu. Svo stórt mót krefst mikillar skipulagningar og til þess að þetta gangi allt upp leggur hópur sjálfboðaliða, sem skiptir hundruðum, fram ómælda vinnu. Án alls þessa góða fólks væri þetta ekki mögulegt,” segir Gunnar Gunnarsson, mótsstjóri.
Flautað verður til leiks klukkan 15 miðvikudaginn 30. júní og síðan verður spilað á fmmtudag og föstudag og úrslitaleikir fara fram síðdegis laugardaginn 3. júlí. Spilað verður í sex deildum; argentísku, brasilísku-, chileönsku-, dönsku-, ensku, og frönsku deildinni. Í það heila verða spilaðir 696 leikir í mótinu. Margir af bestu dómurum landsins munu dæma í mótinu, bæði milliríkja- og landsdómarar.
Vefsíða N1-mótsins er á slóðinnihttp://www.ka-sport.is/n1motid. Þar má finna riðla og tímasetningar allra leikja. Einnig munu þar birtast fréttir af mótinu og sömuleiðis verða úrslit leikja þar uppfærð reglulega.