
Fjárhagsuppgjör N1 hf. fyrstu sex mánuði 2013
Rekstrartekjur 27.924 milljónir fyrstu sex mánuði ársins
- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir 566 milljónir á fyrri helmingi ársins og áætlaður um 2,2-2,3 milljarðar á árinu 2013
- Heildarhagnaður tímabilsins 129 milljónir
- Eiginfjárhlutfall 52%
- Hreinar vaxtaberandi skuldir 869 milljónir í lok júní
Rekstur fyrri árshelmings 2013, áætlun og markmið
Rekstrartekjur N1 hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 2013 voru 27.924 mkr samanborið við 28.828 mkr á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 566 mkr samanborið við 1.266 mkr á sama tímabili 2012. Hagnaður tímabilsins var 129 mkr en á sama tímabili árið áður var hann 624 mkr.
Í lok síðasta árs var rekstur Bílanausts færður í sérstakt félag, sem var selt í maí á þessu ári. Sú breyting hefur nokkur áhrif á tekjur og framlegð N1 milli ára en óveruleg áhrif á rekstrarhagnað fyrir afskriftir.
Gengisþróun íslensku krónunnar og þróun á heimsmarkaðsverði olíu hafði umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur félagsins í aprílmánuði 2013, en þá styrktist krónan verulega á skömmum tíma um leið og olíuverð lækkaði í dollurum talið.
Afli á loðnuvertíð var mun minni en á vertíðinni árið áður, sem var sú besta í áraraðir, og hafði það áhrif á afkomu félagsins.
Á fyrri helmingi þessa árs féll til kostnaður vegna undirbúnings skráningar félagsins á markað og vegna sölu á Bílanausti.
Áætlað er að á árinu 2013 verði rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir um 2,2-2,3 milljarðar kr. fyrir kostnað við ráðgjöf vegna sölu Bílanausts og fyrirhugaðrar kauphallarskráningar félagsins. Markmið félagsins er að hlutfallið milli rekstrarhagnaðar fyrir afskriftir og framlegðar af vörusölu, eins og þessir liðir koma fram í uppgjörum félagsins, verði á bilinu 27-30%. Félagið hefur jafnframt mótað stefnu varðandi fjármagnsskipan félagsins og arðgreiðslur sem gerir ráð fyrir að a.m.k. 50% af hagnaði ársins verði greidd til hluthafa og að eiginfjárhlutfall félagsins verði um 40%.
Efnahagur um mitt ár, endurfjármögnun og áform um sölu fasteignar
Bókfært verð eigna félagsins þann 30. júní 2013 nam 28.294 mkr samanborið við 27.769 mkr í árslok 2012. Eigið fé nam 14.618 mkr en var 14.514 mkr í upphafi ársins. Eiginfjárhlutfall var 51,7% þann 30. júní 2013 og námu heildarskuldir og skuldbindingar 13.676 mkr.
Hreinar vaxtaberandi skuldir námu 869 mkr í lok júní, en vaxtaberandi skuldir voru 7.480 mkr, handbært fé og skuldabréf námu 4.048 mkr og órekstrartengdar eignir 2.563 mkr, en þar á meðal er fasteignin að Bíldshöfða 9 sem áformað er að selja. Gert er ráð fyrir að hreinarvaxtaberandi skuldir félagsins verði nálægt núlli í lok þessa árs.
N1 hefur samið um endurfjármögnun á öllum skuldum sínum við lánastofnanir (langtímalán og lánalínu vegna birgðafjármögnunar) á hagstæðari lánakjörum en áður.
Sjóðstreymi mótað af jákvæðum breytingum veltufjármuna og fjárfestingarhreyfingum
Handbært fé N1 nam 3.984 mkr í lok júní en það jókst um 1.476 mkr á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 462 mkr aukningu á sama tímabili í fyrra. Handbært fé frá rekstri nam 1.143 mkr, samanborið við 1.203 mkr á sama tímabili 2012. Fjárfestingahreyfingar, þ.e. keyptir rekstrarfjármunir að frádregnum þeim seldu, skiluðu félaginu 1.004 mkr á fyrri hluta ársins sem að mestu skýrist af sölu Bílanausts í maí síðastliðnum og innheimtu á söluandvirði fasteignarinnar að Klettagörðum 13, en fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 101 mkr á sama tíma í fyrra. Fjármögnunarhreyfingar, þ.e. greiðslur afborgana og vaxta langtímalána, námu 670 mkr samanborið við 640 mkr á fyrri hluta ársins 2012.
Nánari upplýsingar veita Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri, (ebg@n1.is) og Eggert Þór
Kristófersson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, (eggert@n1.is).