13. júní 2016

EM Torgið

Borgarbúar og gestir geta upplifað sannkallaða EM stemningu á Ingólfstorgi frá 10. júní-10. júlí eða á meðan knattspyrnumótið stendur yfir í Frakklandi.  Torgið mun ganga undir nafninu EM torgið frá og með opnunardeginum og vera eins konar heimavöllur Íslands enda búist við að landinn fjölmenni á torgið til að horfa á íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu spila. Ferðamenn munu jafnframt nýta sér torgið en þar verða sýndir alls 45 leikir á risaskjá. Það má því búast við mikilli stemningu á EM torginu í sumar en sambærileg torg eru mjög vinsæl í erlendum stórborgum.

Stöðug dagskrá verður á EM torginu í kringum alla leikina 45 og skemmtun í boði fyrir alla fjölskylduna. Meðal þess er andlitsmálun fyrir börn, knattþrautir KSÍ, lukkuhjól, mannlegur „fussballvöllur“  og ýmsar aðrar uppákomur sem tengjast m.a. menningu þeirra landa sem eru að spila hverju sinni. Þá verður boðið uppá afar veglega dagskrá í kringum leiki Íslands á mótinu.

 Það eru KSÍ, Síminn, Borgun, Icelandair, Íslenskar getraunir, Landsbankinn, N1 og CocaCola sem standa að EM- torginu í samvinnu við Reykjavíkurborg.