Eitt stærsta dekkjahótel landsins opnar í Klettagörðum
N1 hefur opnað nýtt 600 fermetra verkstæði að Klettagörðum 4 í Reykjavík. Verkstæðið verður við lok framkvæmda eitt það stærsta sinnar tegundar hér á landi en í rýminu verður hjólbarðaþjónusta og dekkjahótel fyrir allar stærðir og gerðir farartækja, eins og fólksbíla, jeppa, vörubíla og vinnuvélar, ásamt smurþjónustu fyrir fólksbíla og jeppa.
Áætlað er að dekkjahótelið verði eitt stærsta og fullkomnasta dekkjahótel landsins og að hægt verði að koma fyrir 30 til 35 þúsund dekkjum þegar uppbyggingu lýkur. Með nýja verkstæðinu í Klettagörðum verða þjónustuverkstæði N1 orðin tólf talsins.
„Það er stór og merkilegur áfangi að opna loksins bílaþjónustu N1 í Klettagörðum. Þar verður valinn maður í hverri stöðu og gerir nýtt og stærra húsnæði okkur kleift að þjónusta viðskiptavini enn betur en áður. Með tilkomu nýja verkstæðisins sjáum við einnig fram á að geta umfelgað vel yfir 40 þúsund bíla á ári og auk þess um 15 þúsund vörubíla og vinnuvélar á okkar verkstæðum. Dekkjahótelið okkar verður einnig það stærsta sinnar tegundar hér á landi og sjáum við að mikil eftirspurn er eftir slíkri þjónustu hjá okkar viðskiptavinum, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum,“ segir Dagur Benónýsson, forstöðumaður bílaþjónustu hjá N1.