Eggert Benedikt Guðmundsson nýr forstjóri N1

11. júlí 2012

Eggert Benedikt Guðmundsson nýr forstjóri N1

Fréttatilkynning frá N1, Reykjavík 11. júlí, 2012

Eggert Benedikt Guðmundsson hefur verið ráðinn forstjóri verslunar- og þjónustufyrirtækisins N1 og tekur við starfinu af Hermanni Guðmundssyni. Eggert hefur mikla rekstrar- og stjórnunarreynslu; hann hefur verið forstjóri HB Granda frá árinu 2005 og var áður markaðsstjóri félagsins. Eggert  tekur til starfa sem forstjóri N1 þann 1. september nk.

Talsverðar breytingar hafa orðið á eignarhaldi N1 á undanförnum mánuðum og misserum. Stærstu eigendur félagsins nú eru Framtakssjóður Íslands með um 45% hlutafjár, Íslandsbanki hf.  á um 25% hlutafjár og Lífeyrissjóður verslunarmanna á 10% hlutafjár.

Margrét Guðmundsdóttir, fh. stjórnar N1: „Við erum afar ánægð með að fá Eggert til starfa. Sú reynsla og þekking sem hann hefur af rekstri, bæði hér heima og erlendis, mun nýtast félaginu vel  á spennandi tímum. N1 stendur að vissu leyti á tímamótum. Eftir umrót undanfarinna ára er nú komin festa í eignarhald félagsins, efnahagsreikningurinn er sterkur og fyrirtækið hefur góða stöðu á markaði. Við teljum því allar forsendur til staðar til að félagið geti dafnað vel í því krefjandi samkeppnisumhverfi sem það starfar í. Ég vil, fyrir hönd stjórnar, þakka Hermanni Guðmundssyni fyrir hans störf í þágu félagsins á undanförnum árum.“

Eggert Benedikt Guðmundsson: „Það er mjög spennandi verkefni að taka við stjórnartaumunum í N1 á þessum tímapunkti. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að bjóða viðskiptavinum okkar bestu mögulegu þjónustu á hagstæðu verði og ég hlakka til að vinna með stjórnendum og starfsfólki að því að efla félagið enn frekar og bæta reksturinn þar sem þess er kostur.“

Frekari upplýsingar veitir Margrét Guðmundsdóttir, fyrir hönd stjórnar N1, í síma 821-8002.

Um Eggert Benedikt Guðmundsson:
Eggert Benedikt er Dipl.-Ing. í rafmagnsverkfræði frá háskólanum í Karlsruhe, Þýskalandi, og MBA frá IESE viðskiptaháskólanum í Barcelona á Spáni. Eggert starfaði sem verkfræðingur hjá Íslenska járnblendifélaginu árin 1990-1995. Að námi í IESE loknu vorið 1997 hóf Eggert störf hjá Philips Electronics í Belgíu, en flutti sumarið 2000 til Philips í San José, Kaliforníu. Hjá Philips vann Eggert við vörustjórnun, markaðsstjórnun og viðskiptaþróun. Frá Kaliforníu flutti hann til Íslands í júní 2004 og hóf þá störf sem markaðsstjóri HB Granda. Hálfu ári síðar tók hann við sem forstjóri félagsins og hefur gegnt því starfi síðan.  Eggert er kvæntur Jónínu Lýðsdóttur hjúkrunarfræðingi og á þrjú börn."