Breytingar í Vestmannaeyjum

12. september 2018

Breytingar í Vestmannaeyjum

Skýlið í Friðarhöfn er fyrir löngu orðinn rótgróinn hluti af bryggjulífi Vestmannaeyja og hluti af kaffirúnt margra.Undanfarin 19 ár hafa hjónin
Svanhildur Guðlaugsdóttir og Jóhannes Ólafsson selt þar veitingar ásamt því að vera umboðsaðilar N1. Um mánaðarmótinnæstu munu þau hins vegar hætta rekstrinum. Í kjölfarið mun N1 loka verslun sinni við Básaskersbryggju og flytja í Friðarhöfn, þar sem Skýlið var til húsa. Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdastjóri N1 segir okkur frá breytingunum.

Nú stendur til að sameina N1 á einum stað í Eyjum. Hvað veldur því að farið er í þessar aðgerðir nú?  „Sú ákvörðun Svönu og Jóa að hætta sem umboðsaðilar fyrir N1 nú um mánaðarmótin september-október varð til þess að við ákváðum að ráðast í breytingar,“ sagði Hinrik um ástæðuna á bakvið sameiningu verslananna. „Svana og Jói hafa verið umboðsaðilar N1 í 19 ár og viljum við hjá N1 þakka þeim og starfsfólki þeirra fyrir að hafa veitt frábæra þjónustu í Eyjum.“

Stendur til að breyta húsnæðinu mikið?  „Það er komin viðhaldsþörf á húsnæðið og munum við nýta tækifærið nú í haust og lagfæra húsnæðið.  Það mun taka einhvern tíma að gera þær breytingar sem við viljum ráðast í en við munum reyna að raska sem minnst opnun verslunarinnar. Eftir breytingar getum við boðið viðskiptavinum og starfsfólki N1 upp á betri aðstöðu en áður.”

Aukið vöruúrval 
Aðspurður um vöruúrval nýrrar verslunar segir Hinrik ljóst að nálægðin við höfnina ráða því svolítið en úrvalið verði heldur aukið en hitt. „Skýlið er mjög vel staðsett með tilliti til stærstu vinnustaða Vestmannaeyja.  Húsið er við höfnina og það er alltaf mikið líf við höfnina.  Miðpunktur Vestmannaeyja verður alltaf hafnarsvæðið og þessa staðsetningu viljum við nýta til að fæða bæði fyrirtæki og fólk.  Þó er ljóst að vægi vöruvals til handa fyrirtækjum, iðnaðarmönnum og sjómönnum verður meira en áður var í Skýlinu í tíð Svönu og Jóa.“
En hvað með veitingar, verður áfram hægt að fara út að borða „við sjávarsíðuna“? „Við erum enn að skoða hve breitt vöruúrval í heitum veitingum við getum boðið upp á, hvort við getum boðið upp á veitingar af grilli, s.s. hamborga o.fl.  Það ræðst af því hvort við komum því fyrir í húsnæðinu.  En klárlega verðum við með sælgæti, drykki, samlokur o.þ.h.“

Hinrik segir N1 vera í sífelli þróun og fyrirtækið taki miklum breytingum á næstunni. „Við reynum að koma sífellt fram með nýjungar, ýmist í vöruvali eða þjónustu.  N1 sem fyrirtæki er að taka miklum breytingum á næstunni en félagið keypti nýverið Festi sem á m.a. verslanir Krónunar sem Vestmannaeyingar þekkja vel.“

Áfram heitt á könnunni 
Eins og fram kom hér áðan hefur Skýlið og þar áður Friðarhafnarskýlið sem rekið var af Þorkeli Húnbogasyni, sem enn þann dag í dag er kallaður Keli í Skýlinu, verið vinsæll kaffistaður fjölmargra hopa. Hinrik segir enga breytingu þurfa að verða á því. „Að sjálfsögðu verða allir velkomnir, bæði núverandi viðskiptavinir og vonandi nýir viðskiptavinir.  Við munum halda áfram að taka vel á móti viðskiptavinum og breikkum nú vöruvalið til að einfalda lífið fyrir okkar viðskiptavinum. Það verður áfram hægt að setjast niður í nýrri verslun N1 og njóta útsýnisins yfir höfnina og Heimaklett.“
Hinrik segir N1 hafa verið í góðum höndum hingað til og að ný verslun verði það líka. „Ágúst Halldórsson sem er verslunarstjóri N1 í Vestmannaeyjum mun verða verslunarstjóri á nýjum stað.  Ágúst og Ari hafa staðið sína vakt frábærlega í Eyjum og þjónustað viðskiptavini N1 mjög vel.“

Leggja sitt til samfélagsins 
N1 hefur stutt mjög myndarlega við íþróttastarfið í Eyjum á undanförnum árum og eru helsti styrktaraðili bæði knattspyrnu- og handknattleiksdeilda ÍBV.  „Íþróttir spila stórt hlutverk í forvörnum gegn áfengi og vímuefnum auk þess stuðla íþróttir að aukinni hreyfingu og styrkir samskipti barna og unglinga.  Samstarfið við ÍBV rýmar mjög við stefnu N1 í samfélagslegum málefnum sem félagið leggur mikla áherslu á,” sagði Hinrik og bætti við að lokum. „N1 vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi við einstaklinga jafnt sem fyrirtæki í Vestmannaeyjum og allir sýni framkvæmdunum skilning á meðan þeim stendur.“