Bjarki Már nýr inn í forstöðumannahóp N1

16. september 2022

Bjarki Már nýr inn í forstöðumannahóp N1

Bjarki Már Flosason hefur verið ráðinn í nýja stöðu forstöðumanns stafrænnar þróunar hjá N1 og kemur nýr inn í forstöðumannahóp félagsins. Bjarki mun meðal annars vinna að áframhaldandi þróun og innleiðingu á stafrænum þjónustulausnum fyrir viðskiptavini N1, ásamt því að stuðla að frekari framþróun á innri kerfum félagsins.

Bjarki sinnti áður stöðu þróunarstjóra stafrænna lausna hjá N1 og starfaði fyrir það sem markaðsstjóri Kreditkorta og þróunarstjóri greiðslulausna hjá Íslandsbanka. Bjarki er með B.Sc.-gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1:

„Við bjóðum Bjarka hjartanlega velkominn í teymi lykilstjórnenda N1 þar sem hann mun sjá til þess að félagið standi framarlega í stafrænni þróun hér á landi. Mörg stafræn verkefni eru á dagskrá, svo sem útgáfa nýs þjónustuapps sem áætlað er að ýta úr vör á næstunni sem og áframhaldandi þróun á vildarkerfi N1. Þekking Bjarka á þessu sviði og stafrænum innviðum félagsins mun svo sannarlega styðja við áframhaldandi sókn N1.“

Bjarki Már Flosason, forstöðumaður stafrænnar þróunar hjá N1:

„N1 stendur frammi fyrir gríðarlegum sóknarfærum, þar sem félagið býr að sterkum innviðum sem verður spennandi að þróa áfram. Markaðurinn er jafnframt uppfullur af tækifærum sem N1 er í kjöraðstöðu til að grípa. Orkuskipti og aukin krafa viðskiptavina um stafræna þjónustu munu leika lykilhlutverk á komandi misserum. Ég hlakka til að stíga inn í forstöðumannahópinn og vinna náið með öðrum stjórnendum N1 við að grípa þessi tækifæri.“