Aukið úrval hollustu hjá Nesti - Viðtal við Steinunni Björk Eggertsdóttur vörustjóra veitinga

26. janúar 2018

Aukið úrval hollustu hjá Nesti - Viðtal við Steinunni Björk Eggertsdóttur vörustjóra veitinga

Nesti, sem er hluti af N1 hefur aukið verulega við úrvalið af hollum valkostum hjá sér undanfarið og ætla að halda því áfram. Þar er nú hægt að finna alls kyns hollan morgunmat og vegan rétti.

Nesti, hefur auðveldað fólki á ferðinni lífið og verið mikilvægur hluti af ferðalögum Íslendinga um þjóðvegi landsins áratugum saman. Í takt við breyttar kröfur Íslendinga um þægilega, fljótlega en um leið holla fæðu hefur Nesti aukið úrvalið hjá sér, svo nú er hægt að fá holla veganrétti og hollan morgunmat á stöðvum þeirra um allt land.

„Nesti var stofnað árið 1957 og hugsunin þá var sú sama og hún er í dag, að þjónusta alla þá sem eru á ferðinni og vilja grípa með sér hollan og góðan valkost,” segir Steinunn Björk Eggertsdóttir, vörustjóri veitinga. „Nestislínan í þeirri mynd sem hún er í dag var sett af stað árið 2016 en hún hefur verið í stöðugri þróun síðan þá.

Nýlega bættum við úrvalið á Nestisvörum og bættum við fleiri veganréttum ásamt öðrum nýjungum í hollari kantinum,“ segir Steinunn.

„Veganvörurnar sem við bættum við eru veganskál með falafel og grænmeti, veganvefja með hummus, döðlumauki og sætum kartöflum, tröllahafragrautur með möndlusmjöri og chiagrautur með kókosmjólk,“ segir Steinunn. „Við ætlum svo að bæta við fleiri nýjum vörum á allra næstu dögum eins og vegan köku, nýjum djús og fleiru spennandi. Nú þegar bjóðum við veganborgara á þjónustustöðvum okkar á landsbyggðinni.

Við ákváðum að bæta í vegan flóruna hjá Nesti því við höfum fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir vegan valkosti í þjóðfélaginu og af því að við viljum höfða til fleira fólks,“ segir Steinunn.

Nesti hefur ekki bara bætt úrvalið af vegan kosti, heldur líka bætt við fleiri hollum valkostum. „Aðrar hollustuvörur sem eru nýjar hjá okkur eru kjúklingasalat og kjúklingavefja með jógúrtkjúklingi og kryddjurtapestói,“ segir Steinunn. „Svo eru eru fleiri nýjungar á leiðinni eins og grísk jógúrt, skyrkaka og fleira girnilegt.

Það er sífellt gerð meiri krafa um hollustu og við viljum koma til móts við kröfur viðskiptavina með þessu aukna úrvali,“ segir Steinunn. „En á sama tíma er auðvitað enn hægt að fá gömlu góðu vörurnar sem við höfum boðið upp á hingað til. Þetta er bara viðbót svo sem flestir fái eitthvað við sitt hæfi.“

Nesti byrjaði líka nýlega að bjóða upp á hollan morgunmat, enda margir sem þurfa að þjóta af stað á morgnana án þess að ná að borða morgunmat. „Ástæðan fyrir því að við fórum að bjóða upp á morgunmat er sú að okkur fannst þetta vanta inn í vöruúrvalið hjá okkur og bara á markaðinn almennt,“ segir Steinunn. „Grautarnir eru líka til dæmis sniðugt millimál fyrir þá sem vilja sneiða hjá brauði. Við bjóðum einnig upp á nokkrar tegundir af smurðum rúnstykkjum, croissanti, djúsum, boozti og ávöxtum, þannig að það er auðvelt að finna bæði hollan og bragðgóðan mat við sitt hæfi hjá Nesti.“

 

Video af nýjum vegan vörum má sjá hér