Almennt hlutafjárútboð í N1 dagana 6.-9. desember

25. nóvember 2013

Almennt hlutafjárútboð í N1 dagana 6.-9. desember

Almennt útboð á 25% hlut í N1 hf. mun fara fram nú í desember, en um er að ræða hluti í eigu FSÍ (Framtakssjóðs Íslands) slhf. og Íslandsbanka hf. N1 hf. mun óska eftir því að öll hlutabréf í félaginu, samtals 1.000 milljón hlutir, verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland hf. (Kauphöll Íslands) í kjölfarið.

Fjárfestum munu standa tvær áskriftarleiðir til boða: Í  tilboðsbók A verða 10% í félaginu boðin á verðbilinu 13,5-15,3 krónur á hlut og geta áskriftir í þeim hluta verið að andvirði frá 100 þúsund krónum og allt að 10 milljónir króna. Í tilboðsbók B verður tekið við áskriftum að andvirði yfir 10 milljónir króna en hver áskrift getur að hámarki numið 15% í félaginu sem er heildarframboð í þessum hluta útboðsins. Lágmarksverð í B verður 15,3 krónur á hlut. Seljendur munu eftir lok áskriftartímabils ákvarða eitt endanlegt gengi á alla selda hluti í hvorri tilboðsbók og getur gengið orðið sitthvort í A og B. Ef umframeftirspurn verður í útboðinu er útboðið stækkanlegt í allt að 28% hluta.

Framtakssjóðurinn gerir að öðru óbreyttu ráð fyrir að eiga 20,90% í N1 eftir útboðið og Íslandsbanki 4,35-7,35% í félaginu.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1: „Þetta er stórt skref fyrir félagið og hluthafa þess sem eru nú 67 talsins. Við höfum kappkostað að undirbúa okkur vel og teljum félagið í stakk búið að mæta þeim kröfum sem gerðar eru til skráðra félaga. N1 verður væntanlega góð viðbót við þá flóru félaga sem skráð er í íslensku Kauphöllinni, en það skiptir máli að þar séu fjölbreyttir fjárfestingarkostir.“

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hefur umsjón með fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll en Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka annast sölu og markaðssetningu á útboðinu. N1 hefur birti lýsingu á www.n1.is/fjarfestatengsl/ . Innbundin eintök af lýsingunni má einnig nálgast hjá N1 að Dalvegi 10-14 í Kópavogi frá 29. nóvember. Í lýsingunni eru nánari upplýsingar um fyrirkomulag útboðsins. Tekið verður við áskriftum á www.islandsbanki.is frá klukkan 10.00 föstudaginn 6. desember til klukkan 16.00 mánudaginn 9. desember næstkomandi.

Nánari upplýsingar veitir:
Sverrir Ármannsson, fjárfestatengill N1, sími: 440 1035, ir@n1.is