Á rafmagni alla leið norður

04. maí 2017

Á rafmagni alla leið norður

Orka náttúrunnar og N1 hafa í samstarfi við fleiri aðila sett upp þrjár hlöður fyrir rafbíla á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hlöðurnar eru á þjónustustöðvum N1 í Staðarskála í Hrútafirði og á Blönduósi og sú þriðja var sett upp við tengivirki RARIK og Landsnets rétt við Varmahlíð til bráðabirgða. . Hraðhleðslur eru í öllum hlöðunum og í þeim verða einnig hefðbundnar hleðslur en áður var komin hleðslustöð á þjónustustöð N1 í Borgarnesi.

Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON segir að samstarfssamningur ON við N1, sem gerður var í vetur, hafi nú þegar sannað gildi með því að tekist hafi að brúa þennan mikilvæga hluta hringvegarins fyrir sumarið. „N1 vill bjóða viðskiptavinum þá orkugjafa sem þeir þurfa á þjónustustöðvum okkar og þetta er einn áfangi á þeirri leið. Nú geta rafbílaeigendur slakað á meðan þeir hlaða bílinn og komist norður og suður eftir hentugleika,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1.