Fara yfir á efnissvæði

Valmynd

Ársskýrsla N1

2015

Samfélagsleg ábyrgð

N1 er samfélagslega ábyrgt fyrirtæki. Ýmis svið falla undir samfélagslega ábyrgð eins og umhverfismál, öryggismál, siðareglur og tengsl við samfélagið og er nú unnið að því að skilgreina stefnuna. Samfélagsleg ábyrgð verður sífellt veigameiri þáttur í rekstri okkar hjá N1 og nær til allra þátta starfseminnar. En hvað þýðir hugtakið samfélagsleg ábyrgð? Að sögn Ásdísar Bjargar Jónsdóttur, gæðastjóra N1, fellur margt undir hugtakið eins og til dæmis umhverfismál, siðareglur, sanngjarnir starfshættir, samfélagsleg virkni, þróun og tengsl við samfélagið.

N1 fær Jafnlaunavottun

Þann 19. júní, á hátíðis- og baráttudegi íslenskra kvenna fékk N1 Jafnlaunavottun VR. N1 er þar með fyrsta olíufélagið á Íslandi til að hljóta vottunina sem staðfestir það að hjá fyrirtækinu er starfsfólki, sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf, ekki mismunað í launum. Jafnlaunakerfi fyrirtækisins stenst þannig kröfur jafnlaunastaðals Staðlaráðs Íslands. Jafnlaunavottun VR tekur nú til tæplega 5.100 starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði.

N1 skrifar undir yfirlýsingu um loftslagsmál

Kolbeinn Finnsson, framkvæmdastjóri rekstarsviðs N1, skrifaði undir yfirlýsingu um loftlagsmál ásamt forsvarsmönnum 103 fyrirtækja og stofnanna sem komu saman í Höfða þann 16. nóvember. N1 ásamt öllum þessum fyrirtækum hefur ákveðið að taka þátt í að skuldbinda sig til aðgerða til að draga úr losun gróðuhúsalofttegunda.

Stærsta N1 mótið frá upphafi hefst í dag

N1 mótið í knattspyrnu hófst á Akureyri 1. júlí og stóð til 4. júlí. Um 1800 keppendur og 180 lið tóku þátt. Auk keppenda af öllu landinu koma þrjú erlend lið á mótið, eitt frá Svíþjóð og tvö frá Færeyjum. Mótið er langfjölmennasta N1 mótið sem haldið hefur verið og er því búist við þúsundum gesta til Akureyrar.

N1 og KA áframhaldandi samstarf

Á N1 mótinu á Akureyri var gengið frá nýjum fjögurra ára samningi milli Knattspyrnudeildar KA og N1 um áframhaldandi samstarf. Samningurinn felur í sér stuðning N1 við framkvæmd N1 mótsins auk þess sem félagið verður næstu fjögur árin aðal styrktaraðili Knattspyrnudeildar KA.

N1 í samstarf um sýningar á leikjum 1. deildar

N1, KSÍ og 365 gerðu með sér samning varðandi beinar útsendingar frá leikjum í 1. deild karla í fótbolta sumarið 2015. „Það er gleðiefni að fá N1 sem samstarfsaðila í þetta verkefni og saman trúi ég að við munum lyfta umfjöllun um fyrstu deildina upp á hærra plan en áður hefur þekkst“ sagði Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365.

N1 styrkir Hæfileikamótun KSÍ

Um 600 ungmenni tóku þátt í Hæfileikamótun KSÍ og N1 sem lauk helgina 3.-4. október með fótboltamóti drengja í Kórnum í Kópavogi, en stúlknamótið fór fram helgina 19.-20. september. Þetta er annað sumarið sem Hæfileikamótun KSÍ og N1 er haldið. Að þessu sinni tóku 600 ungmenni þátt og komu þau víðsvegar frá landinu. Fótboltalið um allt land fengu heimsóknir frá þjálfurum KSÍ sem stóðu fyrir fræðslu og mátu jafnframt getu leikmanna á aldrinum 13 til 14 ára í þeirri von að finna framtíðarleikmenn landsliðsins. Í kjölfarið bauðst 95 drengjum og 82 stúlkum að taka þátt í Hæfileikamótun í Kórnum og landsliðsþjálfurum gafst tækifæri til að fylgjast með þeim spila.

Ný viðgerðaraðstaða fyrir hjólreiðafólk

Ný viðgerðaraðstaða fyrir reiðhjól var sett upp 23. október við N1 í Fossvogi. Hjólaveggurinn er fyrstur sinnar tegundar hér á höfuðborgarsvæðinu en við stefnum á að setja upp fleiri slíkar stöðvar á næstu vikum. Um er að ræða viðgerðarstand sem er með verkfærum, loftpumpu og fleiri tólum sem hægt er að nýta til smáviðgerða og hægt er að hengja hjólið uppá standinn til að auðvelda viðgerð.

N1 styrktaraðili U17

Úrslitakeppni Evrópumóts U17 kvenna hófst á Íslandi þann 22. júní, en leikið var í Reykjavík, Kópavogi og Akranesi. Á mótinu léku efnilegustu knattspyrnukonur Evrópu og enda reyndist mótið spennandi og skemmtilegt. N1 er stoltur styrktaraðili U17 kvenna.

N1 styrkir Breiðablik til sigurs

Kvennalið Breiðabliks vann úrvaldsdeildina í ár. En þetta er í sextánda skipti sem þær ná þessum glæsilega árangri. N1 er stoltur styrktaraðili Breiðabliks og óskar stelpunum til hamingju með sigurinn.

Metþátttaka í Vegabréfaleiknum í sumar

Metþátttaka var í Vegabréfaleiknum okkar í sumar en 54.000 tóku þátt en þetta var í 19. skiptið sem Vegabréfaleikur N1 er haldinn. Það var hún Sara Rut Beck nemandi í 4. bekk í Rimaskóla sem vann sér inn aðalvinninginn sem var fjölskylduferð til Tenerife á vegum Heimsferða.

N1 styrkir Mæðrastyrksnefnd í Kópavogi

Markaðsstjórinn N1 Þyrí Dröfn Konráðsdóttir afhenti í desember Mæðrastyrksnefnd Kópavos eina milljón króna, en þetta er fimmta árið í röð sem við hjá N1 gefum Mæðrastyrksnefnd peningagjöf til þess að aðstoða bágstaddar fjölskyldur fyrir jólin og styrkja þá sem minna mega sín.

Rómantíkin blómstrar á N1

Okkur þykir gaman að gleðja viðskiptavini N1. Rómantíkin sveif yfir N1 Hringbraut á konudaginn þegar við gáfum herramönnunum blómvönd til þess að gefa konunni sinni og tókum stemninguna upp með faldri myndavél.

N1 gefur til hjálparstarfs erlendis

Í september gaf N1 fimm vörubretti af fatnaði og skóm til Rauða kross Íslands til þess að senda í erlent hjálparstarf.

N1 styður við Ökuleikni

N1 styður við íslandsmeistarakeppni í Ökuleikni sem haldin var helgina 19. og 20. september. Trukkar og rútur kepptu á laugardeginum og fólksbílar á sunnudeginum. Brautin – bindindisfélag ökumanna hefur staðið fyrir Ökuleikni í rúm 25 ár. Á þeim tíma hefur Ökuleikni skipað sér sess um allt land sem skemmtilegur og spennandi viðburður

N1 styrkir Samhjálp

Í byrjun desember fórum við með rúmlega 200 vinnupeysur og 200 vinnubuxur og aðrar vörur sem eru hlýjar og góðar til Samhjálpar. Vörður Leví Traustason framkvæmdastjóri Samhjálpar tók fagnandi við þessum vörum og segir að þær komi sér vel fyrir þá sem búa á götunni og verja tíma sínum hve mest úti við.

N1 styrkir Útme´ða

Geðhjálp og Rauði krossinn efndi í sumar, í samstarfi við 12 manna hlaupahóp, til átaks- og forvarnarverkefnis gegn sjálfsvígum ungra karla á Íslandi undir yfirskriftinni Útme‘ða. Með slagorðinu eru ungir karlmenn hvattir til að setja tilfinningar sínar í orð til að stuðla að því að hafna ekki í tilfinningalegu öngstræti með ófyrirséðum afleiðingum. Sjálfsvíg hafa verið algengasta dánarorsök íslenskra karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára á allra síðustu árum. Hlaupahópurinn safnaði áheitum til styrktar Útme‘ða og hljóp hringinn í kringum landið eftir þjóðvegi eitt.

N1 styrkir Fjölskylduhjálp Íslands

Í byrjun desember heimsóttum við Fjölskylduhjálpar Íslands og afhentum Ásgerði Jónu Flosadóttur formanni Fjölskylduhjálparinnar og sjálfboðaliðum þar tvö vörubretti með 1.400 flíshúfum og vettlingapörum og 300 úlpum. En þetta er fjórða árið í röð sem við förum með vörur til þeirra.

Heimsókn á Blönduós og Hvammstanga

N1 bauð til hádegisverðar og kynnti starfsemi sína á Blönduósi og Hvammstanga um miðjan apríl. Viðskiptastjórar N1 tóku vel á móti bændum og kynntu fyrir þeim þær vörur og þjónustu sem N1 hefur upp á að bjóða. Meðal þess sem þar var kynnt voru rekstarvörur, olíur, fatnaður, dekk og fleira.

Allt á hjólum

N1 var með bás ásamt Michelin á sýningunni Allt á hjólum í Fífunni helgina 9.-10. maí. Mikil aðsókn var að básnum og höfðu gestir mestan áhuga á að skoða dekkin og felgurnar sem við vorum með til sýnis. Dagur Benónýsson, rekstrarstjóri þjónustuverkstæða, segir að margir hafi góða reynslu af Michelin dekkjum og vilji ekki sjá neitt annað.

Staðarskáli heldur í hefðina

Jólahlaðborð hefur verið haldið árlega í Staðarskála síðan 1986 eða í tæp 30 ár. Jólahlaðborð Staðarskála er fyrir vegfarendur, flutningabílstjóra og nærsveitunga. Boðið í ár var mjög vel sótt en um 90 gestir mættu og gæddu sér á hátíðarmat og jólaöli. Daganna eftir jólahlaðborðið halda síðan konurnar í sveitunum í kring, úr handverkshópnum Grúsku, jólamarkað með handverki og kræsingum. Við hjá N1 erum stolt af því að reka Staðarskála og fá að vera hluti af samfélaginu í Hrútafirðinum.

Tók ranga beygju og gekk út með Play Station tölvu

Stundum er það jákvætt að taka vitlausa beygju, en það var allavega raunin fyrir hann Tind og mömmu hans í byrjun júlí þegar þau enduðu eftir vitlausa beygju á N1 stöðinni í Borgarnesi. En það varð til þess að Tindur labbaði út alsæll með PlayStation 4 tölvu.