N1 er eitt stærsta verslunar- og þjónustufyrirtæki hérlendis og þjónar fólki og fyrirtækjum á hátt á annað hundrað þjónustustöðvum hringinn í kringum landið. Að auki rekur N1 fjölmörg verkstæði sem sinna hjólbarða- og smurþjónustu og smærri viðgerðum.
Aðfangakeðja N1 sýnir marga snertifleti starfseminnar. Samræmdar innri aðgerðir N1 gera það að verkum að við höfum tækifæri til að láta gott af okkur leiða með stýrðum og samfélagslega ábyrgum aðgerðum. Með öflugu dreifikerfi um allt land, markvissu vöruvali og persónulegri þjónustu fyllum við samfélagið orku til að takast á við krefjandi verkefni.
N1 rekur 29 þjónustustöðvar með veitingar og smávörur fyrir fólk á ferðinni um land allt. Nesti er vörumerkið sem er notað fyrir þjónustustöðvarnar og stendur það fyrir ferskleika og gæði bæði í vöruvali og þjónustu. Á Nesti er hægt að nálgast hollari skyndibita, gæða veitingar og kaffirétti og er stöðugt unnið að umbótum til að gera þjónustustöðvarnar meira aðlaðandi fyrir fólk á ferðinni. Mikil áhersla er lögð á að þjónusta ferðamenn á landsbyggðinni þannig að þeir geti sótt sér m.a. upplýsingar um færð á vegum og fái vöruúrval við hæfi. Starfsmenn N1 hafa orðið varir við aukna eftirspurn eftir hollari og léttari veitingum samfara auknum ferðamannastraumi og er mikill metnaður lagður í að þróa veitingarnar þannig að þær höfði til ólíkra hópa. Á þéttbýlisstöðum er auk þess hægt að leigja kerrur af ýmsum stærðum og gerðum á þjónustustöðvum félagsins. N1 rekur 8 sjálfsafgreiðslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu en opnuð var ný sjálfsafgreiðslustöð í Norðlingaholti og 3 sjálfsafgreiðslustöðvar eru nú starfræktar undir merkinu DÆLAN þar sem áhersla er lögð á lágt verð óháð afslætti. N1 býður hjólreiðafólki upp á vöruúrval, aðstöðu og verkfæri til að huga að reiðhjólum sínum og sinna smáviðgerðum á þjónustustöðvum N1 við Ægisíðu, Fossvog, Skógarsel, í Borgartúni og í Mosfellsbæ. Að auki býður N1 í Borgarnesi upp á rafhleðslu í samvinnu við ON og metangas á Bíldshöfða 2. Metangasið hlaut norræna umhverfismerkið Svaninn á árinu, það er flutt beint með leiðslu frá Álfsnesi að þjónustustöð N1 í þjöppun tilbúið á bifreiðar viðskiptavina okkar. Að auki býður N1 upp á sjálfsafgreiðslu á landsbyggðinni í samstarfi við 54 umboðsmenn sem eru með sjálfstæðan rekstur tengdan ferðaþjónustu eða veitingarekstri.
N1 rekur 11 smur- og dekkjaverkstæði og þjónustar þar bæði fyrirtæki og einstaklinga. Þjónusta við Akureyringa jókst þar sem nýtt verkstæði að Réttarhvammi bættist við í flóru öflugra smur- og dekkjaverkstæða. Hjólbarðaverkstæðin eru frá 2011 vottuð Michelin Quality Dealers. Slíka vottun hljóta eingöngu hjólbarðaverkstæði sem uppfylla ströngustu gæðakröfur Michelin, stærsta hjólbarðaframleiðanda í heimi. Verkstæði N1 hljóta þar eina hæstu einkunn sem möguleg er. N1 býður jafnt fyrirtækjum sem einstaklingum upp á geymslu á hjólbörðum á dekkjaverkstæðum N1. Þannig geta viðskiptavinir N1 fengið dekkin sín hrein og yfirfarin við næstu dekkjaskipti. Á verkstæðum N1 er lögð áhersla á góða þjónustu og hágæða vörur frá framleiðendum eins og Exxon Mobil, Michelin, Q8, Cooper, Kumo og Banner rafgeyma.
N1 starfrækir eitt fullkomnasta vöruhús á landinu við Klettagarða 13 í Reykjavík. Vöruhúsið er tæplega 10.000 fermetrar að stærð og búið fullkomnum búnaði til geymslu og tínslu. Vöruhúsið uppfyllir allar helstu gæða- og öryggiskröfur til geymslu á smurolíum, hjólbörðum og ýmiskonar rekstrarvörum. Vöruhúsið gegnir mikilvægu hlutverki í hröðu og öruggu afhendingarferli til viðskiptavina N1.
Við Klettagarða 13 er jafnframt ein af glæsilegu fyrirtækjaverslunum N1. Fyrirtækið rekur samtals 8 verslanir um land allt sem þjónusta jafnt fyrirtæki sem einstaklinga. Vöruúrvalið er hnitmiðað og þar geta viðskiptavinir N1 keypt m.a. smurefni, efnavörur, rekstrarvörur og vinnufatnað. Á síðastliðnu ári var rekstur þjónustustöðvar og verslunar á Hornafirði sameinaður undir einu þaki og geta nú fyrirtæki og einstaklingar á Hornafirði og nágrenni nálgast allt vöruframboð N1 á einum stað.
Fyrirtækjaþjónusta N1 sér innlendum og erlendum viðskiptavinum fyrir eldsneyti, smurefni, rekstrarvöru og vinnufatnaði og sinnir ýmissi annarri þjónustu. Selt er beint til fyrirtækja og í sérstökum verslunum. N1 kortið veitir fyrirtækjum aukinn ávinning í formi samningsbundinna kjara og góðrar yfirsýnar með rafrænum uppgjörum.
N1 þjónar íslenskum sjávarútvegi með þéttu neti afgreiðslustaða um allt land. N1 annast einnig þjónustu við skip um allan heim gegnum alþjóðlega skipaþjónustu ExxonMobil. Eldsneytið er framleitt eftir ströngustu kröfum og flokkunarfélag, sem gætir hagsmuna skipaeigenda, rannsakar alla eldsneytisfarma. Viðskiptavinir hafa aðgang að fullkomnum olíurannsóknarkerfum sem veita upplýsingar um ástand smurefna, vélbúnaðar og hvort sérstakra úrbóta sé þörf. Gerð eru smurkort fyrir öll skip og báta í samráði við framleiðendur vélbúnaðarins. N1 hefur alla tíð lagt metnað sinn í að þjónusta vel smábátaeigendur um allt land og geta smábátasjómenn nú tekið eldsneyti á 48 höfnum víðsvegar um landið. Slíkt þjónustunet er einsdæmi á Íslandi og eykur öryggi smábátasjómanna.
N1 selur þotueldsneyti og flugvélabensín á Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli og auk þess flugrekstrarvörur, t.d. smurolíur fyrir þotuhreyfla og vökvakerfisolíur. Miklar gæðakröfur eru gerðar við sölu, geymslu og dreifingu á flugvélaeldsneyti og er kerfi N1 vottað árlega af viðurkenndum aðilum.
Einnig selur N1 verktökum, matvælafyrirtækjum og bændum ýmiss konar vörur. Viðskiptastjórar N1 eru í reglulegum samskiptum við viðskiptavini félagsins og tryggja persónulega þjónustu. Því til viðbótar geta viðskiptavinir N1 nálgast vöruúrval N1 í gegnum heimasíðu félagsins. Þjónustuver N1 er alltaf til taks fyrir kortaþjónustu, sölu og móttöku pantana og upplýsingagjöf.
N1 vinnur markvisst að því að efla og bæta þjónustu- og vöruframboð og vera vakandi yfir tækifærum og nýjungum. Félagið leggur mikla áherslu á þjálfun og símenntun starfsfólks. Nútímatækni við vörustjórnun er nýtt til hins ýtrasta til að einfalda hlutina og auka hagkvæmni og öryggi.