Stjórn N1 hf. hefur skipað starfskjaranefnd. Hlutverk nefndarinnar er að vera leiðbeinandi fyrir stjórn um starfskjör stjórnarmanna og stjórnenda félagsins og ráðgefandi um starfskjarastefnu, sem tekin skal til endurskoðunar ár hvert og lögð fyrir aðalfund félagsins. Skal nefndin jafnframt fylgjast með að starfskjör æðstu stjórnenda séu innan ramma starfskjarastefnu félagsins og gefa stjórn skýrslu þar um árlega í tengslum við aðalfund. Stjórn félagsins skal kjósa þrjá menn til setu í starfskjaranefnd. Skal meirihluti nefndarmanna vera óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess.
Í starfskjaranefnd má hvorki forstjóri félagsins né annar starfsmaður eiga sæti. Óháðir stjórnarmenn mega eiga sæti í starfskjaranefnd. Haft skal að leiðarljósi að nefndarmenn hafi reynslu og þekkingu á viðmiðum og venjum við ákvörðun starfskjara stjórnenda. Starfskjör nefndarmanna skulu ákveðin á aðalfundi. Í starfsreglum stjórnar skal kveðið á um störf nefndarinnar.
Í starfskjaranefnd sitja Margrét Guðmundsdóttir stjórnarformaður, Jón Sigurðsson og Helgi Magnússon.
Stjórn N1 hf. hefur skipað endurskoðunarnefnd fyrir félagið í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga. Í henni skulu sitja eigi færri en þrír nefndarmenn og skal meirihluti þeirra vera óháður N1 hf. Nefndin skal skipuð til eins árs í senn á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Meirihluti nefndarmanna skal vera stjórnarmenn N1 hf. og stjórn félagsins skal tilnefna formann. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við störf nefndarinnar og skal að minnsta kosti einn nefndarmanna hafa staðgóða þekkingu og reynslu á sviði reikningsskila eða endurskoðunar.
Starfskjör nefndarmanna skulu ákveðin á aðalfundi. Nefndinni er ætlað að hafa eftirlit með endurskoðun ársreikninga og mat á störfum endurskoðenda til að tryggja frekara öryggi og vönduð vinnubrögð við endurskoðunina. Samkvæmt reglum um störf nefndarinnar skulu tveir stjórnarmenn valdir í nefndina auk eins utanaðkomandi sérfræðings. Nefndin skal halda a.m.k. fjóra fundi á ári og aukafundi þegar formaður telur þörf á því.
Í nefndinni sitja þau Kristín Guðmundsdóttir stjórnarmaður, Þórarinn V. Þórarinsson stjórnarmaður og Guðmundur Frímannsson endurskoðandi sem er formaður endurskoðunarnefndar.
Framkvæmdastjórn N1 er skipuð lykilstarfsmönnum félagsins þar sem hver framkvæmdastjóri ber ábyrgð á tilteknu sviði gagnvart forstjóra. Tekið skal fram að meðlimir framkvæmdastjórnar N1 eru ekki með kaupréttarsamninga við félagið. Engin hagsmunatengsl eru á milli meðlima framkvæmdastjórnar og helstu viðskiptaaðila eða samkeppnisaðila félagsins sem og stórra hluthafa í félaginu. Á árinu 2016 voru haldnir 13 stjórnarfundir, 8 fundir í endurskoðunarnefnd og 4 fundir í starfskjaranefnd. Meirihluti stjórnar, endurskoðunarnefndar og starfskjaranefndar hefur mætt á alla fundi. Endurskoðunarnefnd boðar endurskoðendur félagsins á fundi reglulega auk þess sem þeir mæta á stjórnarfundi séu endurskoðuð eða könnuð uppgjör til umfjöllunar.