Okkur er ljóst að orðspor N1 er ein dýrmætasta eign félagsins. Í þessu ljósi höfum við sett okkur eftirfarandi siðareglur, sem gilda um alla starfsemi félagsins og alla starfsmenn og stjórn þess, sem og þá verktaka, sem sinna verkefnum fyrir félagið.
Við förum eftir öllum lögum og reglum sem eiga við starfsemi félagsins og leggjum okkur fram um að vera traustir þátttakendur í samfélaginu.
Við berum virðingu fyrir viðskiptavinum okkar og leggjum allt kapp á að veita þeim framúrskarandi vörur og þjónustu á sanngjörnu verði. Á sama hátt virðum við birgja okkar og metum að verðleikum hlutverk þeirra í virðiskeðjunni.
Við leggjum kapp á að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólks félagsins með aðbúnaði á vinnustað, fræðslu og þjálfun. Við fylgjum viðurkenndum öryggis- og heilsuverndarstöðlum. Við erum umburðarlynd, tökum tillit til ólíkra sjónarmiða og leyfum hæfileikum hvers og eins að njóta sín. Við stuðlum að jafnrétti á vinnustað og erum málefnaleg og sanngjörn í öllum okkar samskiptum. Við líðum hvorki einelti né aðra áreitni.
Við veitum hluthöfum og öðrum markaðsaðilum réttar og skilmerkilegar upplýsingar um rekstur félagsins eins og hæfir skráðu félagi á markaði. Félagið fer eftir reglum markaðarins og góðum stjórnarháttum.
Við sýnum umhverfinu virðingu og leitumst við að bjóða umhverfisvænar vörur og þjónustu. Við leggjum okkur fram um að valda sem minnstum skaða á umhverfinu með starfsemi félagsins og fylgjum viðurkenndum umhverfis-, gæða-, öryggis- og heilsufarsstöðlum.
Við virðum þagnarskyldu um þær trúnaðarupplýsingar, sem okkur berast, og helst sú þagnarskylda þótt látið sé af störfum. Við nýtum okkur ekki trúnaðarupplýsingar til ávinnings, hvorki fyrir okkur sjálf né aðra.