Fara yfir á efnissvæði

Valmynd

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn N1 er skipuð lykilstarfsmönnum félagsins þar sem hver framkvæmdastjóri ber ábyrgð á tilteknu sviði gagnvart forstjóra.

Eggert Þór Kristófersson

Forstjóri

Eggert er fæddur árið 1970. Á árunum 1995-1997 starfaði Eggert hjá VÍB hf. sem ráðgjafi í einstaklingsþjónustu. Hann var forstöðumaður sölu og þjónustu hjá Lánasýslu ríkisins 1997-1999 og starfaði hjá Íslandsbanka-FBA og Íslandsbanka hf. 2000-2004 þar sem hann bar ábyrgð á skuldabréfastöðu bankans í eigin viðskiptum. Á árunum 2005-2007 var Eggert framkvæmdastjóri rekstrarfélags verðbréfasjóða Íslandsbanka og síðar Glitnis banka hf. Árið 2008 starfaði Eggert sem framkvæmdastjóri eignastýringar Glitnis banka á Íslandi og í Finnlandi en ári síðar gekk hann til liðs við fjárfestingafélagið Sjávarsýn ehf. þar sem hann gegndi starfi framkvæmdastjóra. Eggert tók við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs N1 í júní árið 2011 og tók við starfi forstjóra N1 í febrúar 2015. Eggert er stjórnarformaður Malik Supply A/S og Nordic Marine Oil. Hann er með Cand. oecon. gráðu á endurskoðunarsviði í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og er jafnframt löggiltur verðbréfamiðlari.

Guðný Rósa Þorvarðardóttir

Framkvæmdastjóri einstaklingssviðs

Guðný Rósa er fædd árið 1963. Hún starfaði sem markaðs- og innkaupastjóri hjá Skeljungi frá árinu 1995 þar til í apríl 2005 þegar hún varð markaðsstjóri Parlogis hf. Í september 2005 tók Guðný Rósa síðan við sem framkvæmdastjóri Parlogis þar sem hún starfaði í 10 ár eða þar til hún varð framkvæmdastjóri einstaklingssviðs N1 í apríl 2015. Guðný Rósa hefur setið í stjórn Félags atvinnurekenda, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og GS1 á Íslandi. Hún er með Cand. oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Hinrik Örn Bjarnason

Framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs

Hinrik er fæddur árið 1972. Hann starfaði sem sölustjóri hjá SÍF hf. og dótturfélögum 1998-2003, m.a. í tvö ár í Englandi. Í upphafi árs 2003 tók Hinrik við starfi forstöðumanns útflutningssviðs Samskipa og sinnti því til 2007. Árin 2007-2008 starfaði hann hjá Landsbankanum sem yfirmaður erlends sjávarútvegsteymis bankans sem sá m.a. um fjármögnun á alþjóðlegum sjávarútvegsfyrirtækjum. Frá 2009 og þar til í janúar 2013 starfaði Hinrik í Hamborg sem framkvæmdastjóri Eimskips í Þýskalandi. Hinrik hóf störf sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs hjá N1 um miðjan janúar árið 2013. Hinrik er í stjórn G2 Brenna Holdings Ltd. Hann er með Cand.oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands

Kolbeinn Finnsson

Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs

Kolbeinn er fæddur árið 1964 og er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hann á að baki langan starfsferil hjá N1 og forvera félagsins, Olíufélaginu hf. Kolbeinn starfaði á fjármálasviði Olíufélagsins hf. 1987-1991 og var deildarstjóri hagdeildar 1991-2001. Árin 2001-2007 var Kolbeinn starfsmannastjóri og yfirmaður upplýsingatæknimála ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn félagsins. Árið 2007 tók Kolbeinn svo við starfi framkvæmdastjóra starfsmannasviðs N1, en nafni sviðsins var breytt á árinu 2015 í rekstrarsvið.

Pétur Hafsteinsson

Framkvæmdastjóri fjármálasviðs

Pétur er fæddur árið 1979. Hann starfaði á endurskoðunarsviði KPMG 2004-2007. Árið 2007 hóf Pétur störf hjá N1 sem sérfræðingur í hagdeild en árið 2011 tók hann við sem deildarstjóri deildarinnar. Í apríl 2015 tók Pétur svo við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs. Hann er með Cand. oecon. gráðu á endurskoðunarsviði í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og M.Acc. gráðu frá sama skóla í reikningshaldi og endurskoðun.