Fara yfir á efnissvæði

Valmynd

Fjárhagsleg frammistaða

Heimsmarkaðsverð á olíu og gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum, einkum bandaríkjadollar, hefur á hverjum tíma veruleg áhrif á reksturinn. Helstu áhrifavaldar í þróun heimsmarkaðsverðs eru þó í venjulegu árferði árstíðabundnar eftirspurnarsveiflur, efnahagslegar aðstæður á stærstu olíumörkuðum heimsins, aðgengi að olíulindum og milliríkjadeilur. Gengi krónunnar endurspeglast annars vegar af innri áhrifum í íslenska efnahagskerfinu og hins vegar í alþjóðlegu umhverfi svo sem gengi dollars gagnvart evru.

Þróun heimsmarkaðsverðs á olíu á árinu hafði jákvæð áhrif á afkomu félagsins. Á árinu 2016 hækkaði heimsmarkaðsverð á bensíni um 18% og á sama tíma lækkaði gengi dollars gagnvart krónu um 13%.

Afkoma

Hagnaður N1 árið 2016 nam 3.378 millj. kr.,samanborið við 1.860 millj. kr. árið 2015. Grunnhagnaður og þynntur hagnaður á hlut nam 9,74 kr. árið 2016, samanborið við 3,39 kr. árið áður. Rekstrartekjur félagsins árið 2016 námu 34.139 millj. kr. samanborið við 49.411 millj. kr. árinu áður. Það er 31% lækkun á milli ára, sem skýrist að mestu af brotthvarfi Icelandair úr viðskiptum við félagið í árslok 2015 ásamt lækkun á heimsmarkaðsverði á eldsneyti og dræmri loðnuvertíð. Framlegð af vörusölu jókst um 10% á milli ára sem skýrist að miklu leyti af aukningu ferðmanna en breytt samsetning sölu á árinu 2016 miðað við árið 2015. Það ásamt hækkun á heimsmarkaðsverði olíu á árinu 2016, skýrir að mestu að framlegð á seldan lítra eldsneytis 2016 er hærri en á árinu 2015. EBITDA var 3.625 millj. kr. árið 2016 samanborið við 3.012 millj. kr. árið áður. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 22 millj. kr. á árinu og neikvæðir um 13 millj. kr. á árinu 2015.

Fjárhæðir eru í þúsundum króna

EBITDA

Opinber gjöld

Opinber gjöld skiptast í virðisaukaskatt, skatta á eldsneyti og aðrar vörur og launatengd gjöld. N1 greiddi  16.138 millj. kr. í opinber gjöld árið 2016 samanborið við 15.676 millj. kr. árið 2015, sem jafngildir 2,9% hækkun á milli ára. Árið 2016 greiddi félagið að meðaltali 1.345 millj. kr. á mánuði í opinber gjöld eða rúmlega 44 millj. kr. á dag.

Rekstrargjöld

Laun og annar starfsmannakostnaður

Stöðugildi voru 502 í árslok 2016 en voru 490 árið áður. Starfsmannafjöldi var að meðaltali 532 en 521 árið áður sem er aukning um 2% og skýrist hækkunin af auknum umsvifum á einstaklingsmarkaði og í bílaþjónustu. Laun og annar starfsmannakostnaður nam 4.234 millj. kr. árið 2016, samanborið við 3.883 millj. kr. árið áður. Laun og annar starfsmannakostnaður hækkaði því um 9% á milli ára en hækkunin er vegna samningsbundinna launahækkana samkvæmt kjarasamningum ásamt fjölgun stöðugilda.

Sölu- og dreifingarkostnaður

Sölu- og dreifingarkostnaður nam 2.079 millj. kr. árið 2016, samanborið við 2.268 millj. kr. árið áður sem er 8% lækkun. Dreifingarkostnaður eldsneytis lækkaði um 368 millj. kr. sem skýrist að mestu af minni sölu í flugeldsneyti og til erlendra aðila. Viðhaldskostnaður hækkaði um 113 millj. kr. og  markaðskostnaður hækkaði um 65 millj. kr.

Annar rekstrarkostnaður

Annar rekstrarkostnaður nam 1.635 millj. kr. árið 2016, samanborið við 1.397 millj. kr. árið áður sem er 17% hækkun á milli ára en hækkunin skýrist meðal annars af auknum umsvifum og almennum kostnaðarhækkunum umfram verðbólgu. Skrifstofu og stjórnunarkostnaður hækkaði um 55 millj. kr. og annar kostnaður um 183 millj. kr. á milli ára.

Afskriftir

Afskriftir námu 773 millj. kr. árið 2016, samanborið við 717 millj. kr. árið 2015.

Fjármagnsliðir

Hreinn fjármagnskostnaður var 22 millj. kr. á árinu 2016 en 13 millj. kr. árið áður. Fjármunatekjur lækkuðu um 10% á milli ára og voru fjármagnsgjöld 9% hærri en árið áður. Lækkun á fjármunatekjum var 19 millj. kr. sem má að mestu rekja til lægri stöðu handbærs fjár og lægri innlánavaxta.  Gengistap var 2 millj. kr. árið 2016 á móti 53 millj. kr. gengishagnaði árið áður.

Efnahagsreikningur

Bókfært verð eigna félagsins í árslok 2016 nam 25.622 millj. kr. samanborið við 18.785 millj. kr. árið áður en hækkunin skýrist að mestu af hækkun á fastafjármunum. Eigið fé í lok árs 2016 var 12.572 millj. kr., en var 7.731 millj. kr. í lok árs 2015. Eiginfjárhlutfall var 49,1% í lok árs 2016, samanborið við 41,2% í lok árs 2015. Í lok árs 2016 námu heildarskuldir 13.050 millj. kr. samanborið við 11.054 millj. kr. árið áður.

Eignir

Fastafjármunir

Óefnislegar eignir félagsins námu 258 millj. kr. í árslok 2016, samanborið við 317 millj. kr. árið áður en afskriftir ársins vegna óefnislegra eigna námu 105 millj. kr. og keyptur hugbúnaður 47 millj. kr. Óefnislegar eignir félagsins samanstanda af hugbúnaði að fjárhæð 131 millj. kr. og eignfærðum keyptum vörumerkjum að fjárhæð 127 millj. kr. Rekstrarfjármunir félagsins námu 15.773 millj. kr. í árslok 2016, samanborið við 9.167 millj. kr. árið áður. Hækkunin er að mestu vegna endurmats fasteigna í árslok. Afskriftir ársins af rekstrarfjármunum námu 668 millj. kr. og viðbætur 1.154 millj. kr.

Á árinu 2011 var færð virðisrýrnun á fasteignum félagsins.  Á árinu 2016 komu fram vísbendingar um að virðisrýrnunin hefði gengið til baka.  Sérfræðingar unnu virðismat á eldneytisstöðvum og öðrum fasteignum félagsins miðað við árslok 2016.  Niðurstaða matsins var að virðisrýrnunin væri að fullu gengin til baka og að verðmæti eignanna væri umfram bókfært verð þeirra eftir bakfærslu virðisrýrnunarinnar.  Félagið hefur ákveðið að breyta um reikningsskilaaðferð, endurmeta fasteignirnar og færa þær til gangvirðis í samræmi við heimild í alþjóðlegum reikningsskilastaðli.  Heildaráhrif breytinganna voru að 1.323 m.kr.  voru færðar í rekstrarreikning félagsins á árinu vegna bakfærslu virðisrýrnunar, en  4.850 m.kr.  í aðra heildarafkomu vegna endurmats umfram afskrifað kostnaðarverð.

Eignarhlutir í hlutdeildarfélögum og öðrum félögum námu 1.764 millj. kr. í árslok 2016, samanborið við  1.625 millj. kr. árið áður sem er hækkun um 140 millj. kr. eða 8,6% á milli ára. Hækkunin er vegna hlutdeildar í tekjum hlutdeildarfélaga.

Veltufjármunir

Veltufjármunir félagsins námu 7.768 millj. kr. í árslok 2016, samanborið við 7.609 millj. kr. árið áður. Hækkunin skýrist að mestu af auknum birgðum vegna aukinna umsvifa. Veltufjárhlutfall félagsins var 1,59 í árslok 2016, samanborið við 1,79 árið áður.

 

Rekstrarfjármunir

Birgðir félagsins hækka töluvert á milli ára og námu 3.027 millj. kr. í árslok 2016, samanborið við 2.604 millj. kr. árið áður. Eldsneytisbirgðir í árslok 2016 námu 1.730 millj. kr., samanborið við 1.323 millj. kr. árið áður sem er 31% hækkun á milli ára, vegna aukinna umsvifa og verkfalls sjómanna. Birgðir annarra vara hækkuðu um 1,3% á milli ára en þær námu 1.297 millj. kr. í árslok 2016 samanborið við 1.281 millj. kr. árið áður.

Birgðir

Viðskiptakröfur

Viðskiptakröfur námu 2.303 millj. kr. í árslok 2016, samanborið við 2.275 millj. kr. árið áður og er breytingin óveruleg milli ára.

Skuldir

Langtímaskuldir

Vaxtaberandi langtímaskuldir félagsins námu 6.500 millj. kr. í árslok 2016, samanborið við 6.370 millj. kr. árið áður. Félagið er með óverðtryggt langtímalán og er endurgreiðslutími lánana miðaður við 20 ár en lánstími 10 ár. Langtímalán er án afborgana fram til september 2021.

Skammtímaskuldir

Skammtímaskuldir félagsins námu 4.900 millj. kr. í árslok 2016, samanborið við 4.239 millj. kr. árið áður. Þetta er hækkun frá fyrra ári um 15,6% sem að mestu má rekja til hækkunar á skuldum við hið opinbera og á skuldum við lánstofnanir (skammtímahluta).

Skuldsetning

Eigið fé

Eigið fé félagsins nam 12.572 millj. kr. í árslok 2016, samanborið við 7.731 millj. árið áður en það er 62,6% hækkun á milli ára. Arðgreiðslur til hluthafa félagsins námu 1.050 millj. kr. (3,0 kr. á hlut). Í desember 2016 var hlutafé félagsins lækkað um alls 100 millj. kr. að nafnverði og 1.287 millj. kr. greiddar til hluthafa. Eiginfjárhlutfall félagsins var 49,1% í árslok 2016, samanborið við 41,2% árið áður.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri árið 2016 var 3.478 millj. kr., en 4.250 millj. kr. árið 2015. Fjárfestingahreyfingar á árinu 2016, námu 992 millj. kr. og fjármögnunarhreyfingar námu 2.698 millj. kr.