Fara yfir á efnissvæði

Valmynd

Áhættustýring

Markmið okkar með áhættustýringu er að greina og lágmarka þá áhættu sem við búum við, meta viðmið og hafa eftirlit með áhættunni. Unnið er eftir áhættustýringarstefnu sem er samþykkt af stjórn N1.

Gengisáhætta

Öll viðskipti N1 í erlendum myntum mynda gengisáhættu. Markmiðið er að stýra gengisáhættu með þeim hætti að hagur N1 sé sem best tryggður. Sú mynt sem mest áhrif hefur á gengismun félagsins er USD. Á árinu lækkaði gengi USD/ISK um tæpar 17 krónur eða um tæp 13%. Gengi innan ársins sveiflaðist heldur meira eða um tæpar 22 krónur. Langstærsti hluti innflutnings N1 er í USD en salan er hins vegar að stærstum hluta í ISK. Gengisáhætta félagsins í árslok 2016 er að mestu leyti vegna viðskiptakrafna, viðskiptaskulda og handbærs fjár í erlendri mynt. Áhætta miðað við 10% næmnigreiningu í árslok er 32 milljónir króna. Dregið er úr gengisáhættu með lánum í erlendri mynt og sérsamningum við stærstu viðskiptavini félagsins. Á árinu 2016 var gengistap gjaldmiðla 2 milljónir króna.

Vaxtaáhætta

N1 býr við vaxtaáhættu vegna vaxtagreiðslna af skuldum og vaxtaberandi eignum. Lán félagsins eru óverðtryggð og með breytilegum vöxtum. Langtímalán félagsins ber REIBOR vexti en skammtímalán REIBOR/LIBOR vexti. Á árinu lækkuðu 1 mánaðar REIBOR vextir um 0,95 prósentustig. Næmnigreining í árslok 2016 sýnir að hækkun á vöxtum um eitt prósentustig lækkar afkomu um 65 milljónir króna.

Verðáhætta

Verðáhætta er skilgreind sem sú áhætta að heimsmarkaðsverð á olíu þróist á óhagstæðan hátt fyrir N1 sem leiði til fjárhagslegs taps og erfiðari samkeppnisstöðu. Áhættan myndast vegna mismunar á olíuverði við innkaup  annars vegar og hins vegar sölu sem hefur bein áhrif á framlegð félagsins. Stýring verðáhættu felur í sér að draga úr afkomusveiflum og verjast óhagstæðri þróun í samræmi við áhættustýringarstefnu N1. Dregið er úr verðáhættu með samningum við stærstu viðskiptavini félagsins. Sveiflukennt heimsmarkaðsverð endurspeglast í örum verðbreytingum á þjónustustöðvum félagsins. Heimsmarkaðsverð á bensíni og dísil hækkaði mikið frá upphafi til loka árs. Til dæmis hækkaði heimsmarkaðsverð á bensíni um 24% yfir árið en verð sveiflaðist um 64% innan árs.

Lánsáhætta

Lánsáhætta er hættan á því að N1 verði fyrir fjárhagslegu tapi vegna þess að viðskiptavinur eða mótaðili í fjármálagerningi getur ekki staðið við umsamdar skuldbindingar sínar. Áhættan er einkum vegna viðskiptakrafna en einnig vegna annarra krafna. N1 hefur sett sér reglur um lánsviðskipti og er leitast við að lágmarka áhættu þar sem horft er til fjárhagsstöðu, lánshæfismats og starfsemi einstakra viðskiptavina auk stöðu atvinnugreina stærstu viðskiptavina. Í árslok 2016 eru viðskiptakröfur 2,3 milljarðar og er staða 30 stærstu viðskiptakrafna 26%. Gjaldfærð virðisrýrnun viðskiptakrafna á árinu er 62 milljónir króna.

Lausafjáráhætta

Lausafjáráhætta er skilgreind sem sú áhætta að félagið eigi ekki til nægilegt laust fé til að mæta skuldbindingum sínum. Stýring lausafjáráhættu felst í því að tryggja að nægilegt laust fé sé til staðar á hverjum tíma til að standa við allar skuldbindingar félagsins og að sem best jafnvægi sé á milli skuldbindinga og vænts sjóðstreymis. Þetta er tryggt annars vegar með handbæru fé og hins vegar með skammtímalánum. Lausafjárstaða félagsins er góð í árslok 2016. Handbært fé í árslok er 2,3 milljarðar króna. Lánalínan nemur 2,5 milljörðum króna auk 25 milljóna USD, samtals að hámarki um 4,5 milljarðar króna og er lánalínan ádregin um 4,5 millj. USD í árslok eða sem nemur 509 milljónum króna.

Rekstraráhætta

Rekstraráhætta er hættan á beinu og óbeinu tapi sem getur orðið vegna fjölda þátta í starfsemi félagsins. Meðal áhættuþátta er vinna starfsmanna ásamt tækni og skipulagi sem beitt er. Dregið er úr rekstraráhættu meðal annars með viðeigandi aðskilnaði starfa, þjálfun starfsfólks og innleiðingu á verkferlum.