Fara yfir á efnissvæði

Valmynd

Ávarp

Margrét Guðmundsdóttir stjórnarformaður og
Eggert Þór Kristófersson forstjóri N1 hf.

Árið 2016 var gott ár í rekstri félagsins og þar vó þungt mikil aukning umferðar á þjóðvegum landsins samhliða auknum straumi ferðamanna til landsins. Eins og undanfarin ár var lögð áhersla á áframhaldandi hagræðingu á öllum sviðum.

Samfélagið

Aðfangakeðja félagsins hefur verið skoðuð með tilliti til samfélagslegrar ábyrgðar og nær það til allra deilda. Til að auka vitund um umhverfis- og öryggismál hjá öllu starfsfólki hefur N1 haldið öryggismánuð í febrúar fjögur undanfarin ár. Þá eru uppfærðar neyðar- og viðbragðsáætlanir, einkum tengdar umhverfi og öryggi, ásamt rekstri og öryggi starfsfólks. Í öðrum stöðlum sem fyrirtækið uppfyllir, svo sem frá Michelin og ExxonMobil, er einnig lögð rík áhersla á umhverfismál og meðhöndlun úrgangs.

N1 hefur verið leiðandi í umhverfisvænum lausnum á eldsneytismarkaði með sölu á metani og íblöndun bætiefna í dísil og bensín. Það er áskorun að finna og bjóða upp á umhverfisvænni valmöguleika í margbreytilegu vöruúrvali N1 og að þjóna með þeim hætti þörfum viðskiptavina en ekki síður umhverfi okkar. Það er sjálfsagður hluti af samfélagslegri ábyrgð okkar að umhverfið beri ekki skaða af starfseminni. Áfram hefur verið haldið að umhverfisvotta þjónustustöðvar samkvæmt umhverfisstaðlinum ISO 14001. Lokið hefur verið við að votta nítján stöðvar og er stefna okkar að allar þjónustustöðvar N1 fái ISO vottun.

Veigamikill þáttur í samfélagslegri ábyrgð N1 er að styrkja íþrótta- og æskulýðsstarf um allt land. N1 mótið var haldið á Akureyri í 30. sinn en þar keppa strákar á aldrinum 11 til 12 ára í knattspyrnu og er þetta mót orðið stærst sinnar tegundar á Íslandi. Var einkar ánægjulegt að sjá í tengslum við EM í fótbolta í Frakklandi hversu margir af landsliðsmönnum Íslands höfðu á sínum ungu árum sýnt góða frammistöðu á Essó-mótinu á Akureyri eins og N1 mótið hét þá. N1 er einn af aðalstyrktaraðilum Knattspyrnusambands Íslands í samstarfi sem kallað er „Alltaf í boltanum með KSÍ“. 

N1 viðhélt jafnlaunavottun VR sem félagið fékk fyrst olíufélaga þann 19. júní 2015 á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Jafnlaunaúttektin greinir upplýsingar um raunverulegan launamun kynja og er það mikið ánægjuefni að geta sýnt fram á að við greiðum sömu laun fyrir sambærileg störf óháð kyni eða þjóðerni. Samkvæmt niðurstöðum jafnlaunaúttektar VR 2016 var kynbundin launamunur hjá félaginu 1%.

Ánægja starfsfólks er okkur mikilvæg. Árlega er gerð ítarleg ánægjukönnun meðal starfsmanna og var niðurstaða hennar jákvæð miðað við árið á undan.  Annað árið í röð vorum við kosin fyrirmyndarfyrirtæki af Creditinfo, sem er viðurkenning fyrir góðan og stöðugan rekstur.

Ný sjálfsafgreiðslustöð var opnuð í Norðlingaholti á vormánuðum og einnig kynnt nýtt vörumerki, Dælan, sem býður aðeins eitt lágt verð og enga afslætti. Dælustöðvarnar eru þrjár talsins, í Mjódd, við Smáralind og í Fellsmúla. Á árinu urðu áherslubreytingar í rekstri Nestisstöðva þar sem boðið er upp á hollt, ferskt og ljúffengt nesti til að koma á móts við kröfur viðskiptavina um vöruval. Viðtökur við breytingunum hafa verið mjög jákvæðar.

Reiðhjólaviðgerðarstöðum hefur verið komið upp við Ægisíðu, Fossvog, Borgarún, í Mosfellsbæ og við Skógarsel til að auka þjónustu við ört vaxandi hóp fólks sem kýs hjólreiðar sem samgöngumáta.

Hluthafar

Aðalfundur N1 hf. var haldinn 16. mars. Á fundinum var samþykkt að greiða 1.050 m.kr. arð til hluthafa. Í stjórn voru kjörin þau Helgi Magnússon, Kristín Guðmundsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Jón Sigurðsson og Þórarinn Viðar Þórarinsson. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund var Margrét Guðmundsdóttir endurkjörin formaður stjórnar og Helgi Magnússon varaformaður. Á árinu störfuðu tvær undirnefndir stjórnar, endurskoðunarnefnd og starfskjaranefnd.  Endurskoðunarnefnd var skipuð þremur aðilum, Guðmundur Frímannsson, löggiltur endurskoðandi var formaður, en auk hans sátu stjórnarmennirnir Kristín Guðmundsdóttir og Þórarinn V. Þórarinsson í nefndinni.  Starfskjaranefnd var skipuð þremur stjórnarmönnum, þeim Margréti Guðmundsdóttur, sem var formaður, Helga Magnússyni og Jóni Sigurðssyni.

Þann 17. febrúar 2016 var birt afkomuspá fyrir árið 2016 á þá leið að EBITDA ársins yrði á bilinu 3.000 -3.100 m.kr. Sú spá var uppfærð í 3.150-3.250 við kynningu á árshlutauppgjöri sem birt var í ágúst. Þann 10. október sendi félagið frá sér afkomuviðvörun þar sem aukin umferð og fjölgun ferðmanna var umfram spár félagsins og var EBITDA spáin uppfærð í 3.450-3.550 m.kr. og við birtingu á árshlutareikningi fyrir þriðja ársfjórðung var spáin aftur uppfærð í 3.500-3.600 m.kr. Lokaniðurstaðan varð sú að EBITDA í ársreikningi félagsins varð 3.625 m.kr. Árið 2016 einkenndist á margan hátt af áframhaldandi hagræðingu í rekstri og var afkoma ársins sú besta frá stofnun félagins. Mikil aukning í ferðamannastraumi til landsins hélt áfram og þar sem N1 er með víðfeðmasta dreifikerfi landsins kemur þessi aukning sér afar vel fyrir félagið.

Hluthafafundur var haldinn 21. nóvember. Á fundinum var samþykkt að lækka hlutafé félagsins um 28,5714%. Samþykktin fól í sér að hlutafé félagsins var fært niður um 100 m.kr. að nafnverði og að yfirverðsreikningur hlutafjár færðist niður um 999 m.kr. og lögbundinn varsjóður um 188 m.kr., samtals að fjárhæð 1.287 m.kr. og var sú fjárhæð greidd hluthöfum 22. desember. Lækkun hlutafjár var framkvæmd í samræmi við markmið félagsins, sem birt höfðu verið við skráningu félagsins á markað, þess efnis að stefnt skyldi að því að eiginfjárhlutfall félagsins yrði um 40%. Í lok árs 2016 er eiginfjárhlutfall 49,1% sem skýrist að mestu af endurmati fasteigna sem var gert undir lok ársins. Heildaráhrif breytinganna voru að 1.323 m.kr. voru færðar í rekstrarreikning félagsins á árinu vegna bakfærslu virðisrýrnunar frá árinu 2011, en 4.850 m.kr.  í aðra heildarafkomu vegna endurmats umfram afskrifað kostnaðarverð.

Félagið hefur greitt hluthöfum 13.190 m.kr. í arð og lækkun hlutafjár frá skráningu félagsins á markað. Markaðsvirði félagsins nam 32,3 milljörðum króna í árslok 2016 og var ávöxtun hluthafa 2016 því um 90% að teknu tilliti til arðgreiðslu og lækkunar hlutafjár.

Stefnumótun og skipulagsbreytingar

Á árinu var unnið að endurmati á stefnu félagsins og samþykkti stjórn á fundi sínum þann 30. nóvember nýtt hlutverk: „Kraftmikil þjónusta sem byggir á framúrskarandi dreifikerfi fyrir fjölbreytta orkugjafa og markvisst vöruúrval“. Ný framtíðarsýn var einnig samþykkt: „Við höldum sókninni áfram með uppbyggingu og fjárfestingu í þjónustu með öflugu dreifineti, fjölbreyttum orkugjöfum og smásölu“.

Á stjórnarfundi 8. desember var ákveðið að breyta skipulagi félagsins til að styðja við stefnu og framtíðarsýn og frá 1. janúar 2017 mun félagið birta starfsþáttaryfirlit í árshluta- og ársreikningum.Samhliða þessu ákvað stjórn félagsins að stofna dótturfélag til að halda utan um fjárfestingar félagsins til að undirbúa næstu skref í framþróun þess.